Næturbleyjur

Lykillinn að góðri næturbleyju er að prófa sig áfram og læra inn á hversu mikla rakadrægni barnið þarf en það kemur á óvart hversu mismunandi það getur verið milli barna. 

 

Einfalda leiðin 

Einfaldast er hreinlega bara að prófa sig áfram. Gott að bústa bleyjuna aðeins meira frekar en minna og sjá síðan hvernig staðan er morguninn eftir. Ef þú hefur áhyggjur af leka í dýnuna, þá er auðvitað hægt að skella vatnsheldu undirlagi eða pissulaki á rúmið ef þú notar ekki slíkt fyrir. 

 

Aðeins lengri leiðin 

Ef fólk vill undirbúa sig meira fyrirfram er hægt að mæla hversu mikið barnið pissar og sömuleiðis mæla rakadrægni næturbleyjunnar sem á að prófa.

Einföld og þægileg leið til að áætla þörf barnsins fyrir rakadrægni er að í nokkra daga nota núverandi bleyjufyrirkomulag en vigta bleyjuna fyrir og eftir nóttina. Mismunurinn í grömmum er jafnt þeim millilítrum sem barnið skilar frá sér. Ef bleyjan er 300 gr þyngri að morgni en hún var kvöldinu áður, þá pissaði barnið 300 ml.

Síðan er hægt að prófa rakadrægni taubleyjunnar með því að vigta hana þurra og síðan blauta. Þetta er hægt að gera með því að leggja bleyjuna ofan á yfirborð sem má blotna, til dæmis borðplötu, og hella vatni rólega úr mælikönnu um það bil á þann stað sem barnið myndi pissa á þegar það klæðist bleyjunni. Fylgist með hvernig bleytan dreifist um efnið, þannig er hægt að fá hugmynd um hversu hratt efnið tekur við vökva og hversu vel vökvinn dreifist um bleyjuna. Ef efnið tekur mjög hægt við bleytunni er hætta á að vökvinn nái ekki að dreifast um rakadræga efnið áður en að ytri hluti bleyjunnar myndi mögulega leka. Ef þetta er tilfellið gæti verið gott að leggja inn í bleyjuna, næst húð barnsins, þunnt innlegg úr efni sem dregur hraðar í sig vökva. Það gæti til að mynda verið bómull eða tencel efni. Athugið þó að ef bleyjan er gerð úr náttúrulegum efnum þarf yfirleitt að þvo bleyjuna nokkrum sinnum áður en hún nær fullri rakadrægni. Þegar búið er að metta bleyjuna með vatni þarf að taka tillit til þrýstileka. Hægt er að kreista bleyjuna aðeins til að líkja eftir hvernig þyngd barnsins myndi þrýsta hluta af vökvanum úr efninu í bleyjunni. Einnig er hægt að setja gegnblauta bleyjuna á stutta vindingu í þvottavél og þannig taka af vafa um að verið sé að ofmeta raunverulega rakadrægni bleyjunnar. Vigtið síðan bleyjuna og fáið þannig mælingu á rakadrægni bleyjunnar þar sem hvert gramm af aukinni þyngd bleyjunnar merkir að hún hefur dregið í sig 1 ml af vökva. 

 

Mismunandi næturbleyjur

Til eru ýmsar útfærslur á næturbleyjum og tveggja hluta bleyjur gera okkur kleift að prófa okkur áfram með mismunandi samsetningar. Við hjá Tau erum mjög hrifin af að nota bleyjubuxur úr ull sem ytra lagið enda býður ullin upp á frábæra öndun og temprar hitastig þannig að barninu verður hvorki heitt né kalt. Skeljar úr PUL eða TPU efnum geta líka verið mjög fínar yfir næturbleyjur og er þá gott að hafa í huga að velja rúmgóðar skeljar úr léttu og teygjanlegu efni. 

Innri hluti næturbleyjunnar þarf að vera rakadrægur án þess þó að verða of fyrirferðarmikill. Margt fólk kýs að nota fitted bleyjur, enda einföld og þægileg lausn. Preflat og flat bleyjur eru að aukast í vinsældum þegar kemur að næturbleyjum en yfirleitt þarf að bústa þær bleyjur fyrir nóttina. Það getur verið skemmtilegt að prófa mismunandi bústera í preflat og flat bleyjur og oft hægt að finna samsetningar sem eru í senn fyrirferðalitlar og rakadrægar.

Yfirleitt kýs fólk að nota stay-dry lag næst húð barnsins á nóttunni enda er það sú bleyja sem er lengstan tíma samfellt á barninu. Við bjóðum upp á fitted bleyjur með og án stay-dry lags og einnig bjóðum við bæði innlegg og linera/renninga sem geta bætt stay-dry lagi við bleyjur sem ekki hafa það fyrir. 

 

Smellið hér fyrir úrval okkar af næturbleyjum. 

Back to blog

Taubleyjur á nóttunni

Mjúk ull - Fitted bleyjur - Preflat og flat bleyjur - Vasableyjur og AI2