Til eru margar gerðir taubleyja. Í grófum dráttum má segja að taubleyjur séu annað hvort í einu lagi eða tveimur pörtum. Með því er í raun átt við hvort bleyjan sé sett á barnið í einu skrefi eða tveimur. Til að nefna dæmi, þá eru eins hluta taubleyjur til að mynda vasableyjur og all-in-one bleyjur. Dæmi um tveggja hluta bleyjur eru samsetningar af innri bleyju á borð við preflat eða fitted bleyju og síðan ytri bleyju eins og skel úr ull eða TPU/PUL efnum. Þar sem við lítum á að bleyjan sé tveggja hluta ef hún er sett á barnið í tveimur skrefum, þá flokkum við all-in-two (AI2) bleyjur með eins hluta bleyjum.
Hér hjá Tau leggjum við mesta áherslu á tveggja hluta kerfi, vegna þess að okkur finnst þær vörur bjóða upp á mesta fjölbreytni til að mæta ólíkum þörfum einstaklinga eftir hvað hentar hverju sinni. Einn helsti kosturinn við að nota tveggja hluta taubleyjur er að hægt er að para saman innri (rakadræga) hluta og ytri (vatnsfráhrindandi) hluta eftir eigin hentisemi, alveg óháð því hvort þessir tveir hlutar tilheyri endilega sama kerfinu eða komi frá sama framleiðanda.
Við bjóðum upp á ólíkar gerðir af bleyjum sem eru innra lagið og eru þar með ragadrægi hluti bleyjunnar. Við förum á ákveðinn hátt aftur í upprunann, að nota flatar, þunnar bleyjur í ýmsum sniðum sem eru brotnar saman og bundnar utan um barnið. Mikil þróun hefur átt sér stað í þessum bleyjum undanfarin ár, þær eru gerðar úr teygjanlegum efnum sem eru í senn rakadræg og fljót að þorna. Einnig ber að nefna að þynnri bleyjur sem gerðar eru úr einu eða fáum lögum af efni, þær hreinsast betur í þvotti heldur en bleyjur og annar textíll sem gerður er úr mörgum lögum af efni. Þær gerðir innri bleyja sem við bjóðum upp á eru flat bleyjur, preflat bleyjur, contoured bleyjur, fitted bleyjur ásamt innleggjum með smellum sem passa í flestar smelluskeljar á markaðnum.
Við bjóðum upp á ólíkar gerðir af skeljum (ytri hluta). Fyrst ber að nefna dásamlegu ullina sem við erum svo hrifin af. Notkun ullarskelja og bleyjubuxna úr ull er frábær leið til að minnka plastnotkun og þar með losun örplasts með þvottinum. Við bjóðum einnig upp á skeljar úr TPU og PUL efnum sem eru að hluta til gerð úr endurunnum plastflöskum. Vert er að hafa í huga að ef kosið er að nota gerviefni á borð við TPU og PUL efni, að leggja sig fram við að nota vöruna mikið og lengi, þar sem talið er að losun örplasts með þvotti sé langmest með fyrstu þvottum en fari minnkandi eftir því sem varan er þvegin oftar.
Loks bjóðum við upp á sérvaldar hágæða eins hluta bleyjur, þ.e. vasableyjur sem hægt er að nota sem slíkar eða sem all-in-two bleyju. Vasableyjur eru vinsælasta gerð taubleyja í heiminum í dag og geta verið sérlega góður byrjunarpunktur fyrir fólk sem hefur áhuga á að prófa taubleyjur. Þær eru einnig tilvaldar fyrir aðra umönnunaraðila, til að mynda afa og ömmu, dagforeldra, leikskólann o.s.frv.
Hér neðst á síðunni má sjá yfirlit um vörur sem falla undir flokkana sem við fjölluðum um í þessari grein.