Ytra tau
Til eru margar gerðir taubleyja. Í grófum dráttum má segja að taubleyjur séu annað hvort í einu lagi eða tveimur pörtum. Hér hjá Tau leggjum við mesta áherslu á tveggja hluta kerfi, vegna þess að okkur finnst þær vörur bjóða upp á mesta fjölbreytni til að mæta ólíkum þörfum einstaklinga eftir hvað hentar hverju sinni. Einn helsti kosturinn við að nota tveggja hluta taubleyjur er að hægt er að para saman innri (rakadræga) hluta og ytri (vatnsfráhrindandi) hluta eftir eigin hentisemi, alveg óháð því hvort þessir tveir hlutar tilheyri endilega sama kerfinu eða komi frá sama framleiðanda.
Við bjóðum upp á ólíkar gerðir af skeljum (ytri hluta). Fyrst ber að nefna dásamlegu ullina sem við erum svo hrifin af. Notkun ullarskelja og bleyjubuxna úr ull er frábær leið til að minnka plastnotkun og þar með losun örplasts með þvottinum. Við bjóðum einnig upp á skeljar úr TPU efni sem búið er til úr endurunnum plastflöskum. Vert er að hafa í huga að ef valið er að nota gerviefni á borð við TPU, að leggja sig fram við að nota vöruna mikið og lengi, þar sem losun örplasts með þvotti er langmest með fyrstu þvottum en fer minnkandi eftir því sem varan er þvegin oftar.