Ullarþvottur

Fróðleikur um ull, lanólín og þvott

Ull er náttúrulegt efni sem fylgt hefur manninum um langa tíð. Mikilvægt er að hugsa vel um ullina, enda er verið að nýta feld af lifandi veru og það ber að virða með góðri umönnun og nýtingu. Ef ullin er meðhöndluð á viðeigandi hátt getur hún enst mjög lengi. 

Ullin er þvegin á annan hátt en taubleyjur úr öðrum efnum. Ferlið er í fleiri skrefum en á móti kemur að ullina þarf að þvo miklum mun sjaldnar en önnur efni. Ástæðan er að ull er frá náttúrunnar hendi óhentugur staður fyrir bakteríur og aðrar örverur. Þar sem ullin er bakteríudrepandi efni, þá myndast mun síður lykt í ullinni og hana þarf að þvo sjaldnar. Af venjulegum ullarflíkum er oft hægt að hrista óhreinindi af og blettaþvo eftir þörfum. Ef lykt er af ull, til dæmis lopapeysum, er yfirleitt nóg að viðra ullina úti og lyktin hverfur. Þessir sömu eiginleikar gera ullina að frábærum kosti fyrir ytri hluta bleyja, þ.e. skeljar og bleyjubuxur sem settar eru yfir rakadrægar taubleyjur. 

Í ullinni má finna undraefnið lanólín sem er vaxkennt efni sem þekur húð og ull hjá sauðfé. Lanólín er vatnsfráhrindandi og gerir dýrunum kleift að verjast bleytu og raka þannig að þeim líði vel úti í veðrum og vindum. Við vinnslu á ull skilst lanólínið frá ullinni og missir hún þá vatnsfráhrindandi eiginleika sína. Þess vegna eru bleyjur úr ull látnar liggja í lanólíni þannig að fínir ullarþræðirnir fái á sig fína þekju af vatnsfráhrindandi lanólíni. Á þennan hátt er hægt að halda ullinni vatnsfráhrindandi, en athugið að ullin verður ekki vatnsheld. Aftur á móti býr ullin yfir rakadrækni á sama tíma sem þýðir að hún tekur við raka ef bleyjan undir er orðin blaut í gegn. Ef bleyjan er lengi á barninu og allt orðið mettað, þá mun rakinn að lokum sleppa út í gegnum ullina eins og með aðrar skeljar. 

Lanólín eykur mjög á bakteríudrepandi eiginleika ullarinnar og verður til þess að þvag skilur sig, annars vegar í vatn og hins vegar í sölt. Þess vegna þarf ekki að þvo ullarbleyjur nema á 2-8 vikna fresti. Ullin er þvegin ef finna má lykt af þurri bleyjunni eða ef hægðir berast á hana. Stundum má setja ullina í þvottavél á ullarprógramm en suma ull er betra að handþvo. Handþvottur er snöggafgreiddur og yfirleitt eru ullarprógrömm á þvottavélum einnig stutt. 

 

Almennt um ullarþvott 

Þvottaefni

Notið ávallt milda ullarsápu, bæði við handþvott og í þvottavél. 

 

Hitastig

Miða við 20-30°C volgt vatn. Forðast að nota mismunandi hitastig á ullina heldur þvo, skola og leggja í lanólínbað við svipað hitastig. Gott er að nota vaskafat eða bala frekar en rennandi vatn úr krana vegna þess að hitastigið getur breyst mikið og snögglega í krananum. 

 

Litasmit

Áður en ull að ólíkum litum er þvegin saman er gott að prófa hvort ullin smiti lit. Setijð ullina í vaskafat eða bala með 20-30°C volgu vatni og athugið hvort vatnið litist. Ef það litast, þá skal þvo flíkina sér eða með svipuðum litum. Það sama á við um lanólínbaðið, forðist að setja ólíka liti saman nema þið séuð viss um að litirnir smiti ekki. 

 

Handþvottur 

  • Þvottur: Bæði er hægt að blettaþvo eða þvo alla bleyjuna. Látið vatnið um mesta vinnuna og forðist að nudda mikið, annars er hætta á að ullin þæfist. Þvoið með ullarsápunni og skolið. Forðist að vinda ullina, kreistið varlega úr henni mestan lausa vökvann. Ekki þarf að þurrka ullina áður en hún er sett í lanólínbaðið. 
  • Lanólínbað: Leggið ullina í lögurinn og látið liggja í 30 mínútur hið minnsta og í góðu lagi að leyfa þessu að liggja upp undir fjórar klukkustundir. Sjá uppskrift að lögur hér neðst. 
  • Þurrkun: Leggið ullina flata á þurrt handklæði. Rúllið upp handklæðinu með ullina inn á milli og þrýstið létt til að fá sem mest laust vatn úr ullinni. Takið ullina úr handklæðinu og leggið flata til þerris við milt hitastig, til dæmis ofan á þurrkgrind eða á þurrt handklæði á flötu yfirborði. Forðist að setja ullina til þerris á heitan ofn, en þó er í lagi að setja hana stutt frá ofni ef rýmið er kalt. 

 

Vélarþvottur

Ferlið er eins nema þvotturinn sjálfur: 

  • Þvottur: Ef kúkur berst í ullina er gott að skola mest úr áður en hún er sett í þvottavélina (að því gefnu að ullin þoli vélarþvott, skoðið ávallt leiðbeiningar frá framleiðanda). Þvoið með mildri ullarsápunni á köldu eða hæst 30° og stillið annað hvort á engan eða lágan snúning/vindingu. Næst tekur lanólínbaðið við og síðan þurrkun (eins og næstu skref á eftir handþvotti, sjá lista beint fyrir ofan). 

 

Lanólínbað

Lanólínbaðið er búið til úr þremur hráefnum:

  • hreint lanólín
  • mild ullarsápa
  • vatn

Besta mál að nota sömu ullarsápuna og í þvottinum. Af vatninu þurfum við annars vegar einn bolla af mjög heitu eða sjóðandi vatni og hins vegar ílátið okkar með ylvolgu vatni (20-30°C). Ílátið getur verið nokkurn veginn hvað sem er, einu skilyrðin eru að það sé hreint og rúmi ullarflíkina og nóg vatn til að umlykja flíkina. Fyrir eina flík er til að mynda nóg að ílátið sé um 1-2 lítrar en fyrir tvær til þrjár flíkur væri 2-3 lítra ílát rúmbetra. Dæmi um ílát eru vaskafat, bali, fata, krukka eða skál. 

 

Leiðbeiningar miðaðar við eina ullarbleyju: 

  • Takið hálfa til eina teskeið af lanólíni og látið bráðna í bolla af heitu/sjóðandi vatni. 
  • Setjið smávegis af ullarsápu út í og hrærið þangað til blandan er orðin skýjuð og lanólín sést ekki lengur fljóta ofan á. 
  • Hellið bollanum með heitri blöndunni út í stóra ílátið sem búið er að setja 20-30°C ylvolgt vatn í, hrærið. 
  • Setjið ullarflíkina á röngunni í lanólínbaðið og látið bíða í a.m.k. 30 mín. en ekkert að því að leyfa þessu að liggja upp undir fjórar klukkustundir. Passið að flíkin sé öll á kafi og notið endilega eitthvað til að þyngja ef þarf, til dæmis skeið eða lítinn disk. 
  • Takið upp úr baðinu og snúið flíkinni á réttuna. Fylgið síðan leiðbeiningum fyrir þurrkun hér að ofan í kaflanum um handþvott. 

Þegar lanólínið bráðnar þá flýtur það ofan á vatni og lítur úr eins og gul olía. Þegar ullarsápunni er bætt út í binst hún vatninu og lanólíninu þannig að lanólínið flýtur ekki lengur ofan á vatninu. Við þetta breytist ásýnd blöndunnar og verður skýjuð, nokkuð líkt útþynntri mjólk. Ef enn má sjá fljótandi lanólín ofan á vatninu þá má bæta við smá meiri sápu og hræra. 

Ef í vafa, notið frekar aðeins meira lanólín heldur en minna. Ef notað er "of mikið" lanólín getur það myndað litlar klessur á ullinni en það er með öllu hættulaust og hverfur fljótt þegar byrjað er að nota hana. Lanólín hefur líka mýkjandi áhrif á húðina svo engar áhyggjur ef lanólín á ullarflík er upp við viðkvæma húð. 

Aftur í blogg