Hvernig þvæ ég taubleyjur?
Fólk er gjarnan hikandi varðandi þvott á taubleyjum. Til eru ýmsar lífseigar mýtur varðandi taubleyjuþvott sem gefa óaðlaðandi en ósanna ímynd af þessu heimilisverki. Taubleyjuþvottur er bara alls ekki mikið mál og engin ástæða til að óttast hann!
Við nálgumst þó bleyjur úr ull á annan hátt og er þvottaferli þeirra í fleiri skrefum. Á móti kemur að ullarskeljar og bleyjubuxur úr ull þarf að þvo miklu sjaldnar heldur en aðrar skeljar. Sjá einfaldar og aðgengilegar leiðbeiningar fyrir ullarþvottinn hér.
Þvottur - skref fyrir skref
Í stuttu máli gengur þvotturinn svona fyrir sig á bleyjum úr efnum öðrum en ull:
- Pissubleyjur fara beint í óhreinu hrúguna. Ef bleyjan er með kúk í föstu formi, þá viljum við taka sem mest af því úr bleyjunni. Hægt er að hrista bleyjuna yfir klósettinu, taka af með klósettpappír, skafa af með áhaldi, skola undir krana eða handsturtutækinu yfir klósettinu - þú ræður og gerir það sem þér finnst þægilegast. Ef barnið er ekki farið að borða fasta fæðu og nærist einungis á mjólk, þá þarf ekki að fjarlægja kúkinn heldur er hann vatnsleysanlegur og skolast því auðveldlega úr í þvottavélinni og er enginn óþrifnaður sem fylgir því.
- Geyma bleyjurnar á stað sem gefur góða loftun.
- Skella í þvottavélina á forþvott og síðan langan aðalþvott, 40-60°. Sumt fólk kýs að setja á stutt kalt skol fyrir og/eða eftir þvottinn en það er val hvers og eins.
- Hengja til þerris og/eða setja í þurrkara þær bleyjur sem mega fara í þurrkara.
- Hafa það huggulegt að brjóta saman og raða saman bleyjum, til dæmis yfir góðum þætti eða bara í kósíheitum og hlusta á nokkur góð lög eða hlaðvarp. Að ganga frá taubleyjuþvotti getur verið hin ágætasta núvitundaræfing.
Algengar spurningar sem tengjast þvotti
Fylgir taubleyjum mikill auka þvottur?
Nei, yfirleitt er um að ræða eina auka þvottavél á 2-3 daga fresti.
Þarf ég að vera með langa og flókna þvottarútínu?
Eins og sjá má í leiðbeiningunum hér fyrir ofan þarf þvotturinn alls ekki að vera flókinn. Vert er að minnast á að ef þú ert með aðra rútínu í dag og hún virkar vel, ekki breyta henni þó þú sjáir annað fólk gera hlutina á annan hátt. Algjör óþarfi að breyta einhverju sem ekki þarf að laga!
Þarf ég að koma við úrgang barnsins?
Fólk heldur gjarnan að það þurfi að vera í meiri nálægð við piss og kúk ef það notar taubleyjur, en í raunveruleikanum breytir það litlu. Sem umönnunaraðilar ungra barna getum við ekki forðast slíkt með öllu og er það óháð hvernig bleyjur eru notaðar. Athugið að kúkur í föstu formi á heima í klósettinu en ekki almennu rusli sem fer síðan í landfyllingu, þetta á einnig við um einnota bleyjur.
Þegar kemur að þvottinum sjálfum, þá er lítið mál að koma bleyjunum úr pokanum sem þær eru geymdar í inn í þvottavélina án þess að þurfa að snerta bleyjurnar. Þá setur þú opna enda pokans inn í vélina, brettir aðeins niður og ýtir á botninn á honum og bleyjurnar fara inn í vélina og pokinn með á röngunni.
Kemur ekki mikil lykt?
Ráðlagt er að geyma notaðar bleyjur í körfu, poka eða öðru íláti sem leyfir lofti að komast að bleyjunum. Góð loftun kemur í veg fyrir lykt. Oft kemur það aftur á móti umönnunaraðilum taubleyjubarna á óvart hversu mikil lykt kemur af notuðum einnota bleyjum.
Þarf ég að kaupa sérstakt þvottaefni?
Mælt er með að nota umhverfisvæn þvottaefni sem henta viðkvæmri húð. Hægt er að nota almenn þvottaefni en einnig er hægt að kaupa þvottaefni sem hafa verið þróuð með taubleyjuþvott í huga. Skammtið þvottaefnið eftir leiðbeiningum framleiðanda utan á pakkningunum og miðið við soft water og óhreinasta þvottinn. Mörgum kemur á óvart hversu mikið þvottaefni á að nota. Ef þig grunar að þvottavélin skoli ekki þvottaefnið nægilega vel úr bleyjunum getur þú prófað að setja á skol eftir aðalþvottinn og séð hvort vatnið í vélinni freyði eða virðist vera með sápu í.