Lingó

Hvað þýða öll þessi heiti og skammstafanir í taubleyjuheiminum? 

Til eru margar tegundir af taubleyjum, efnum og aðferðum sem fólk í taubleyjusamfélaginu notar oft skammstafanir eða annað lingó um. Hér er leiðarvísir sem útskýrir mörg þessi hugtök á einfaldan hátt. 

 

AIO - All in one bleyjur

All in one kallast taubleyjur sem hafa alla nauðsynlega hluta bleyjunnar fasta saman. Þessar bleyjur eru oft tiltölulega fyrirferðamiklar á barninu og ekki jafnt auðvelt að stýra hversu mikil rakadrægnin er eða hvar hún liggur, þó með undantekningum. Almennt eru AIO hvað lengst að þorna af hinum ýmsu gerðum taubleyja. AIO bleyjur eru oft vinsælar til að senda með taubleyjubarni þegar það er í umönnun annarra aðila en foreldra, til dæmis til afa, ömmu, dagforeldris eða á leikskóla.

 

AI2 - All in two bleyjur

All in two eru bleyjur sem eru samsettar úr tveimur hlutum, vatnsheldri skel annars vegar og rakadrægu innleggi hins vegar. Oftast er skelin úr PUL/TPU efni sem eru plastefni sem gera skelina vatnshelda, en einnig eru til ullarskeljar sem bjóða upp á AI2 kerfi. Skelin er síðan yfirleitt með smellur sem innleggin smella í og mynda þannig eina heild. Ef skelin er ekki klædd að innan með einhvers konar stay-dry efni á borð við Athletic Wicking Jersey (AWJ), þá má yfirleitt strjúka innan úr skelinni og nota hana nokkrum sinnum áður en þarf að setja hana í þvott. Þó er undantekning á því ef hægðir fara í skelina, þá skal ávallt setja hana í þvott. Ef nota má skelina aftur er innlegginu einfaldlega smellt úr og nýtt sett í staðinn. Tveggja hluta kerfi geta almennt dregið úr þvottamagni svo um munar.

 

Vasableyjur

Vasableyjur eru einfaldar í notkun og oft fyrstu taubleyjurnar sem fólk prófar. Þær eru í grunninn samsettar úr skel og innleggjum. Skelin er yfirleitt úr PUL/TPU efni og innan á skelina er lagt annað efni, yfirleitt eitthvert stay-dry efni, og það saumað á. Síðan er vasi á stay-dry efninu þar sem hægt er að renna innlegginu inn á milli stay-dry lagsins og PUL/TPU lagsins. Oftast er vasinn að aftanverðri bleyjunni en þó er hann stundum að framan og í sumum tilfellum eru vasar bæði að framan- og aftanverðu.

Þegar vasableyjur eru þvegnar þarf að þvo bæði skelina og innleggin eftir hverja notkun. Innleggin eru tekin úr bleyjunni fyrir þvott. Yfirleitt má skelin ekki fara í þurrkara en stundum mega innleggin fara í þurrkara, en farið ávallt eftir leiðbeiningum sem fylgja vörunni hverju sinni.

 

Fitted bleyjur 

Fitted bleyjur eru svipaðar í laginu og einnota bleyjur og þeim er ýmist loka með smellum eða riflás. Fitted bleyjur eru ekki með vanshelt lag, heldur eru einungis rakadrægi hlutinn af bleyjunni. Aftur á móti er öll bleyjan rakadræg og bíður því upp á að halda miklum vökva. Fitted bleyjur eru mjög vinsæl lausn fyrir góðar næturbleyju og passa þægilega undir hvers konar skel sem fólk kýs að nota.

 

Flat bleyjur 

Flat bleyjur eru mjög einfaldar í sniði þar sem þær eru ferhyrningslaga bútur af efni. Misjafnt er hvort bleyjan sé gerð úr einu, tveimur eða jafnvel fleiri lögum af efninu. Flat bleyjur má segja að séu hinar upprunalegu taubleyjur og þær er hægt að brjóta saman á ýmsa vegu. Notkun flat bleyja er miklum mun auðveldari en fólk heldur. Um að gera að prófa!
Flat bleyjur eru mjög einfaldar í þvotti og þorna mjög hratt á snúru. Þannig líður skemmri tími á milli þess sem flat bleyja er tilbúin til notkunar og hægt að eiga færri bleyjur fyrir vikið. Að lokum eru flat bleyjur mjög hagkvæmur kostur og vel hægt að koma sér upp góðu safni af flat bleyjum án þess að leggja út mikið fé.

 

Preflat bleyjur

Preflat bleyjur eru mjög svipaðar flat bleyjum en í stað þess að vera einfaldur ferhyrningur í sniðinu þá er búið að sníða út vængi á preflat bleyjunni. Þó er enn hægt að brjóta bleyjuna saman á þann veg sem hentar hverju sinni. Preflat bleyjur er einfalt að þvo og eru mjög fljótar að þorna eins og flat bleyjur.

 

Contoured bleyjur 

Contoured bleyjur eru keimlíkar preflat bleyjum en vængirnir eru í aðeins öðruvísi sniði og einnig er búið að setja mjúka teygju á vænginn þar sem hann leggst upp við bossann og heldur þannig vel við. Þetta hjálpar við að koma í veg fyrir leka úr bleyjunni. Contoured bleyjur er einfalt að þvo og eru fljótar að þorna á snúru, rétt eins og flat og preflat bleyjur.

 

Innlegg, búster og renningur

Innlegg eru rakadrægur hluti sumra taubleyja, t.d. vasableyja og A2 bleyja.

Búster (e. booster) er í raun alveg eins og innlegg nema er kallað búster þegar tilgangur þess er að auka frekar við rakadrægni bleyjunnar.

Yfirleitt er talað um að það rakadræga efni sem fylgir bleyjunni sé innleggið, en allt rakadrægt efni sem bætt er við bleyjuna sé búster og þá er talað um að verið sé að bústa bleyjuna. Dæmi um þetta gæti verið þegar auka innleggi er bætt í vasableyju, þegar búster er bætt í AI2 bleyju, eða þegar innleggi er bætt við í preflat, flat eða fitted bleyju til að auka rakadrægni, t.d. yfir nótt eða langan lúr hjá barninu.

Renningur (e. liner) er settur efst í bleyju, næst húð barnsins, og hefur annan tilgang en rakadrægni. Tilgangurinn er í raun tvíþættur.

Annars vegar er liner notaður til að grípa hægðir til að gera umönnunaraðila auðveldara fyrir að losa kúk úr bleyjunni áður en hún er sett í þvott. Er þá sérstaklega átt við hægðir barna sem farin eru að borða fasta fæðu.

Hins vegar er liner notaður til að stýra hvort barnið finni fyrir vætu eða ekki. Liner getur ýmist verið úr stay-dry efni eða ekki. Algengast er að nota stay-dry efni á borð við flísefni og AWJ. En liner getur einnig verið úr öðru efni á borð við bómul ef þess er óskað að barnið finni fyrir vætu, til dæmis þegar verið er að koppaþjálfa.

 

Stay-dry 

Stay-dry lag er þunnt efni sem er ekki rakadrægt heldur hleypir vökva í gegnum sig. Tilgangur stay-dry lags er að koma í veg fyrir að barnið finni fyrir vætu af blautri bleyju og er stay-dry efnið því sett næst húð barnsins.

Hefðbundin stay-dry efni eru ávallt gerviefni og eru gjarnan gerð úr 100% pólýester í formi athletic wicking jersey, microfleece, eða suede.

Fólk sem ekki vill nota gerviefni hefur notað ýmis náttúruleg efni sem unnin eru á tiltekinn hátt og gefa hálfgerða stay-dry tilfinningu eða í það minnsta láta barnið finna fyrir aðeins minni vætu. Dæmi um þetta er bambus velúr efni. Einnig er hægt að nota liner úr hrásilki eða ull og setja næst húð barnsins. Bæði silkið og ullin þurfa varfærnari meðhöndlun en önnur náttúruleg efni í taubleyjum.

Loks er gott að nefna að það er alls ekki nauðsynlegt fyrir öll börn að hafa stay-dry lag næst húðinni. Sum börn eru vissulega með viðkvæma húð, þola illa vætu og fá af henni útbrot eða roða og er þá ráð að nota stay-dry lag næst húð barnsins. Notkun á taubleyjum án stay-dry lags getur stutt vel við koppaþjálfun og EC þar sem kenningin er að börnin vilji síður pissa eða kúka í bleyjuna sína og frekar í koppinn. Í flestum tilfellum nota foreldrar þó stay-dry lag í næturbleyjur enda er barnið lengst í þeirri bleyju.

 

PUL og TPU efni 

PUL stendur fyrir Polyurethane Laminate og er plastefni sem notað er í skeljar eða ysta lag á samsettum bleyjum (t.d. AIO og vasableyjur) til að gera þær vatnsheldar. Þunn filma af efninu er sett innan á annað efni sem yfirleitt er litað og mynstrað. 

TPU stendur fyrir Thermoplastic Polyurethane og er einnig plastefni sem notað er í sama tilangi í PUL efni.

Bæði efnin eru það sem gera nútíma taubleyjur (e. modern cloth diapers) vatnsheldar. Þó er nokkur munur á þessum tveimur efnum, sjá nánari umfjöllun um efnin hér

 

EC - Elimination Communication - Bleyjulaust uppeldi 

Í stuttu máli byggist EC a hugmyndinni um að börn, líkt og ungviði annarra spendýra, vilji ekki pissa og kúka á sig, umönnunaraðila sinn né á svefnstað sínum. Umönnunaraðilar aðstoða barnið við að losa piss og kúk, oft í kopp eða beint í klósettið, og eru bleyjur þá hugsaðar sem varaplan. Fylgst er með barninu og lært á merkin sem börn gefa yfirleitt frá sér til að gefa í skyn að þau þurfi að losa. Einnig eru tækifæri notuð til að setja barnið á kopp, til dæmis við hver bleyjuskipti, fyrir og eftir svefn, þegar farið er úr einum aðstæðum í aðrar, til dæmis úr bílstól o.s.frv.

 

GSM - Grams per square meter

Rakadrægni er eitt af mikilvægustu atriðum sem snúa að taubleyjum. Fjöldi efnislaga í innleggi segir okkur margt en þó ekki endilega alltaf alla söguna, enda getur hvert lag verið mjög mismunandi að þykkt og eiginleikum.

GSM stendur fyrir Grams per Square Meter, eða þyngd hvers fermetra af efninu sem um ræðir. Almennt er hægt að gera ráð fyrir að því hærra sem GSM er, því meira geti efnið dregið í sig af vökva. Með öðrum orðum, ef tvö innlegg eru jafn stór en gerð úr sitthvoru efninu sem eru misþung, þá mun þyngra innleggið að jafnaði draga meira af vökva í sig. Því hærra GSM, því meiri rakadrægni.

Ef nota á mörg lög af efni með lágu GSM, sem oft eru ódýr efni, er hætta á að bleyjan verði fyrirferðarmikil. Þess í stað er hægt að nota færri lög af efni sem er með hátt GSM.

 

OS, OSFM og stærðir á taubleyjum

Mismunandi er hvernig framleiðendur taubleyja haga stærðum á vörum sínum. Sumar bleyjur eru í nokkrum stærðum á maðan aðrar eru í svokallaðri one-size (OS) eða one-size-fits-most (OSFM).
Bleyjur sem eru hannaðar í nokkrum stærðum eru oft þannig gerðar að þær passa betur fyrir þá þyngd sem um ræðir heldur en OS/OSFM bleyjur.

OS og OSFM er svo til sama hugtakið og á við um bleyjur sem hægt að minnka talsvert með smellum framan á bleyjunni (rise snaps). Áður voru flestar bleyjur með þessa hönnun kallaðar one-size (OS) og var það í raun stytting á one-size-fits-all. Það hefur þó sýnt sig að fæstar bleyjur, ef einhverjar, geta raunverulega passað öllum börnum vel frá fæðingu þangað til þau hætta með bleyju. Mögulega hefur þetta eitthvað með að gera að aldur barna þegar þau hætta með bleyju fer hækkandi. Í dag kalla margir framleiðendur þessa tegund bleyja one-size-fits-most (OSFM) og þykir frekar vera réttnefni en OS.

Sjá nánari umfjöllun um stærðir taubleyja hér.

 

GOTS - Global Organic Textile Standard

Global Organic Textile Standard (GOTS) eru samtök sem eru leiðandi á heimsvísu í vottunum á lífrænum textílefnum. Staðallinn tekur á ýmsum þáttum framleiðsluferlis á lífrænum textílefnum, þar á meðal vistfræðilegum og samfélagslegum þáttum. GOTS vottun merkir því að umrætt efni sé unnið á umhverfis- og samfélagslega ábygan hátt. Sjá nánar um vottanir hér.

 

Oeko-Tex®

Okeo-Tex 100 staðalinn er
sjálfstætt eftirlits- og vottunarkerfi fyrir textílvörur á öllum stigum
framleiðsluferlisins. Staðallinn tekur til alls textíls, sama hvort hann er
lífrænn eða ekki. Til þess að uppfylla skilyrði Oeko-Tex þarf textíllinn meðal
annars að vera alveg laus við yfir 100 efni sem skilgreind eru sem mögulegir
skaðvaldar á heilsu manna.

 

TENCEL® Lyocell og Modal

Tencel er ástralskt vörumerki sem framleiðir bæði lyocell og modal efni. Bæði þessi efni eru gerð úr hálf-tilbúnum trefjum, þ.e. trefjarnar koma frá náttúrulegum efnum en eru meðhöndlaðar með efnaferlum til að búa til textílefni. Trefjar sem þessar eru einnig þekktar sem sellulósatrefjar. Sjá hér fyrir frekari upplýsingar um mismunandi efni.

 

Snappi - Nappi Nippa 

Snappi eru taubleyjufestingar sem eru teygjanlegar og í laginu eins og T. Á öllum þremur endunum eru plastoddar sem grípa í efnið og halda þannig bleyjunni saman. Þegar notaðar eru bleyjur sem ekki er lokað með riflás né smellum, er yfirleitt notað Snappi til að loka bleyjunni. Einnig er hægt að nota aðrar taubleyjufestingar eins og Boingo eða einfaldlega öryggisnælu eins og gert var á árum áður.

 

Lanólín 

Lanólín er vaxkennt efni sem finnst náttúrulega á ull en þegar ullin er unnin er lanólínið yfirleitt skilið frá ullinni, þó að mismiklu leyti. Þegar er ullarflík er lögð í lanólín er verið að sameina þessa tvo þætti aftur, ullina og lanólínið. Lanólín gerir ullina vatnsfráhrindandi, hvort sem er þegar ullin er á kindinni eða þegar hún er orðin að mjúkum bleyjubuxum fyrir barnið þitt. Með notkun mun lanólínið mást af og er flíkin þá lögð aftur í lanólínbað.

Lanólín er notadrjúgt efni úr náttúrunni. Lanólín er notað í ýmiss konar snyrtivörur og oft í varasalva og brjóstakrem.

Back to blog